
Á undanförnum vikum hefur bið eftir geislameðferð við krabbameini á Íslandi orðið
tvöfalt lengri en viðmið gera ráð fyrir og hefur spretthópur á vegum
heilbrigðisráðuneytisins nú skilað tillögum til úrbóta. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að
bregðast hratt og vel við þessum aðstæðum auk þess að tryggja að þær komi ekki upp
aftur svo að fólk með krabbamein komist í nauðsynlega meðferð á réttum tíma.
Geislameðferðardeild Landsspítala Háskólasjúkrahúss er sú eining sem tekur á móti öllum
krabbameinssjúkum á landinu sem þurfa á geislameðferð að halda. Starf geislafræðinga
á deildinni er bæði sérhæft og krefjandi. Það krefst fjögurra ára háskólanáms, auk
sérhæfðrar þjálfunar áður en hægt er að sinna meðferðinni sjálfri.
Á undanförnum árum hefur geislafræðingum á deildinni fækkað, ekki síst vegna þess að
þeim bjóðast betri kjör í einkageiranum eða í vaktavinnu annars staðar í
heilbrigðiskerfinu. Nú er svo komið að aðeins tíu stöðugildi af 15 eru mönnuð. Þetta
hefur skapað aðstæður þar sem geislafræðingar vinna undir miklu álagi, sem hefur
valdið veikindum starfsfólks, bæði til lengri og skemmri tíma. Til að bæta ástandið til
framtíðar þarf að bæta kjör og starfsskilyrði geislafræðinga á geislameðferðardeild.
Það eru því vonbrigði að í tillögum spretthópsins eru ekki lagðar fram tillögur að því
hvernig megi bæta kjör og vinnuaðstæður á geislameðferðardeild heldur aðeins sagt að
þetta verði að skoða. Ætla hefði mátt að það væri hlutverk spretthópsins að skoða þetta
og móta tillögur.
Hins vegar er lögð fram tillaga um að lengja opnunartíma til kl. 19:00 í nokkra mánuði
og treysta þar á vinnuframlag núverandi starfsfólks og þeirra sem nýlega hafa sagt upp
störfum á deildinni. Það skýtur skökku við að ætla núverandi starfsfólki að vinna enn
meira þegar deildin er þegar undirmönnuð á venjulegum opnunartíma hennar.
Það þarf að setja það í forgang strax að bæta kjör og starfsaðstæður fagfólks til að
bjarga mönnun á geislameðferðardeild. Lausnir sem byggja á yfirvinnu þeirra sem fyrir
eru eru hvorki sjálfbærar né öruggar þegar vinna þarf nákvæmnisstarf þar sem ekkert
má út af bera. Öryggi sjúklinga verður alltaf að vera í forgangi.
Félag geislafræðinga átti fund með heilbrigðisráðherra og lagði fram minnisblað í júní sl.
þar sem boðin var fram aðstoð við að leysa þann vanda sem upp er komin. Fulltrúi
félagsins var ekki þátttakandi í spretthópnum og var ekki kallaður á fund hópsins. Vill
félagið ítreka boð sitt um að vinna að lausnum og undirstrika að jafnan sé gott að leita
samráðs við þá aðila sem gegna lykilhlutverki við að leysa vandann.
Í opinberri umræðu hefur að mestu verið fjallað um tækjakaup og þá skammtímalausn
að senda sjúklinga erlendis í meðferð. Þegar það vantar að manna þriðjung stöðugilda
á geislameðferðardeild er ómögulegt að halda úti fullri þjónustu á báðum tækjunum sem
deildin hefur yfir að ráða. Við tökum heilshugar undir nauðsyn þess að bæta við
línuhraðli til að mæta aukinni þörf í framtíðinni, en nýtt tæki leysir engan vanda ef ekki
eru geislafræðingar til að nota það.
Samkvæmt Krabbameinsfélaginu mun nýgreiningum krabbameina fjölga um 57% á
næstu árum. Það er því ljóst að skammtímalausnir duga ekki. Það þarf að ráðast að rót
vandans og gera breytingar til lengri tíma svo að deildin verði í stakk búin að veita bestu
mögulegu meðferð til framtíðar.
Þetta er verkefnið sem þarf að leysa svo tryggja megi að geislameðferð við krabbameini
á Íslandi verði áfram í fremstu röð og aðgengileg öllum sjúklingum þegar þeir þurfa á
henni að halda.
Nýlegar athugasemdir