Skip to main content

BHM semur við Tækninám.is – yfir 30 rafræn námskeið

By 02.02.2021Fréttir

Það er óhætt að segja að mikil umbylting hafi átt sér stað í notkun stafrænnar tækni á síðasta ári. Vegna Covid-19 þurftu margir félagsmenn aðildarfélaga BHM að aðlagast hratt að breyttum vinnuaðstæðum. Margir hafa þurft að læra á eitt eða fleiri fjarfundakerfi, á ný verkefnastjórnunarforrit, læra um stafrænt öryggi við heimavinnu og svo mætti lengi telja.

Nú eru flestir sammála um að fjarvinna sé komin til að vera að einhverju leyti, en það tekur tíma að venjast og læra til fulls á nýja tækni.

Það er því mikið gleðiefni að BHM gerði samning í desember síðastliðnum við fræðslufyrirtækið Tækninám.is um aðgang að öllu þeirra námsefni fyrir félagsmenn aðildarfélaga BHM út árið 2021.

Um er að ræða yfir 30 námskeið sem snúa flest að tæknilegum málum eða hvernig hægt er að nýta tæknina við verkefnastjórnun, samstarf og fleira.

Það er von okkar hjá BHM að félagsmenn nýti sér þessi námskeið og styrki sig um leið á vinnumarkaði. Nú stendur yfir vinna við að setja upp öll námskeiðin lokaðri fræðslusíðu BHM hér: Fræðsla fyrir félagsmenn.

Vinsamlegast athugið að innskráningin er ekki tengd Mínum síðum, því þurfa félagsmenn að  nýskrá sig hér, hafi þeir ekki stofnað aðgang áður.

Eftirfarandi námskeið eru nú aðgengileg á síðunni:
• Excel í hnotskurn
Grunnnámskeið í Excel þar sem farið er yfir fjölbreytta notkunarmöguleika forritsins.
• Excel Online
Excel Online er ekki eins og Excel forritið sem þú notar í tölvunni. Á þessu námskeiði er farið yfir hvernig Excel Online virkar og hver munurinn er.
• Excel Pivot töflur
Námskeið í notkun Pivot taflna í Excel. Þetta er framhaldsnámskeið og gert ráð fyrir að fólk hafi ágætis þekkingu á Excel.
• Fjarvinna með Microsoft Office 365
Grunnkennsla á helstu forrit Office 365 pakkans.
• Teams í hnotskurn
Grunnnámskeið í notkun Teams forritsins, á því er m.a. farið yfir hvernig á að búa til teymi, halda fundi, deila skjölum, spjalla og margt fleira.

Á næstu dögum og vikum munu svo bætast við fleiri námskeið, m.a. um öryggisvitund, Word, PowerPoint, WorkPlace á Facebook, Yammer, Sway, Jira, verkefnastjórnun í SharePoint og fleira.
Sjálfsmatspróf í stafrænni hæfni

Þess má geta að Evrópuþingið hefur útnefnd stafræna hæfni sem eitt af átta mikilvægustu þáttum símenntunar fólks á vinnumarkaði nú og til framtíðar. Ef þú vilt vita hvar þú stendur geturðu smellt hér til að taka sjálfsmatspróf í stafrænni hæfni á íslensku, sem unnið var út frá viðmiðum Evrópuþingsins.

Stafræna hæfnihjólið var búið til af Center for digital dannelse og er fjármagnað af DIGCOMP, rannsóknarverkefni hjá Evrópusambandinu, sem sett var á fót í kjölfar þess að Evrópuþingið útnefndi stafræna hæfni sem eitt af átta kjarnahæfnisviðum símenntunar. VR tók að sér að að láta þýða og staðfæra stafræna hæfnihjólið fyrir íslenskan vinnumarkað.